Smásala í Bretlandi minnkaði í júlí um 0,3% frá fyrri mánuði, en búist var við lækkun um 0,6%. Er þetta talsverð breyting miðað við júní, en þá jókst hún um 1,2%. Síðastliðna 12 mánuði hefur smásala vaxið um 1,8%, sem er þó undir árlegum meðaltalsvexti smásölu síðan í byrjun árs 2004 eða 4,7%. segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar er einnig bent á að minnkunina megi helst rekja til hækkandi olíuverðs, sem hefur dregið úr kaupmætti landsmanna. Hlutdeild smásölu í einkaneyslu er um 40% í Bretlandi. Einkaneysla óx lítið á fyrri helmingi ársins, sem hafði þau áhrif að árlegur hagvöxtur náði sínu lægsta stigi á öðrum ársfjórðungi, ef miðað er við síðastliðin 12 ár. Minnkandi einkaneysla hefur valdið erfiðleikum hjá fyrirtækjum sem hafa brugðist við með auknum uppsögnum starfsmanna, enda jukust nýskráningar atvinnuleysis sjötta mánuðinn í röð í júlí.

Stuttu eftir hryðjuverkin varð smásala miðsvæðis í London fyrir versta áfalli sem hún hefur orðið fyrir síðan í október 2002. Spurning er þó hvort áhrifa hryðjuverkanna gæti enn í dag, þar sem að dró minna úr smásölu en væntingar höfðu staðið til.