Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, er reiðubúinn að grípa til aðgerða til þess að styðja fasteignarmarkaðinn í landinu. Þetta fullyrðir breska blaðið The Times og vísar í ónefndan háttsettan embættismann.

Meðal þeirra kosta sem ráðherrann íhugar er að ríkistryggja fasteignatryggð skuldabréf með gott lánshæfismat og framlengja sérstakri heimild Englandsbanka til þess að taka inn á sínar bækur illseljanlega fasteignatryggð skuldabréf gegn ríkisskuldabréfum.

Fram kemur í blaðinu að tillögurnar verði settar fram í skýrslu um breska fasteignamarkaðinn sem James Crosby, fyrrum framkvæmdastjóri HBOS, er að taka saman.

Búist er við því að þær verði kynntar á svipuðum tíma og Darling kynnir fjárlög næsta árs seint í október.