Breska neytendastofan (OFT) hefur hafið rannsókn á því hvort barnatölvuleikir, sem spilaðir eru á vefnum eða í snjallsímum, setji of mikinn þrýsting á börnin um að kaupa aukahluti í viðkomandi leik fyrir peninga.

Í mörgum leikjum geta spilarar keypt myntir, gimsteina eða aðra sýndarhluti sem geta hjálpað þeim að ná árangri í leiknum. Töluvert hefur verið um fréttir í Bretlandi undanfarið af börnum sem eytt hafa háum fjárhæðum í leiki og má þar nefna hinn fimm ára Danny Kitchen. Hann mun hafa eytt 1.700 pundum, andvirði um 310.000 króna, í iPad leikinn Zombies versus Ninja.

Stofnunin PhonePayPlus, sem hefur eftirlit með gjaldheimtu símfyrirtækja í Bretlandi, segir að kvörtunum vegna leikja og kostnaðar vegna þeirra hefði fjölgað um 300%.

Rannsókn OFT á að leiða í ljós hvort leikirnir séu misvísandi, hvort þrýstingur á spilara sé of mikill eða hvort þeir séu með öðrum hætti ósanngjarnir þegar kemur að sölu á sýndarhlutum.