Um tuttugu sveitafélög í Bretlandi sjá nú fram á að tapa stórfé vegna innlána sinna á Icesave reikningum þar í landi.

Icesave í Bretlandi er í eigu Landsbankans en eins og kunnugt er hafa bresk yfirvöld fryst allar eignir bankans.

Forystumenn Sambands sveitafélaga í Bretlandi (LGA) hafa óskað eftir neyðarfundi með Alistair Darling, fjármálaráðherra vegna málsins en í morgun tilkynnti fjármálaráðherrann að yfirvöld myndu ábyrgast innlán einstaklinga hjá bankanum.

Þá sagði Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands í morgun að breska ríkið hygðist kæra íslensk stjórnvöld fyrir að ábyrgjast ekki innlán viðskiptavina hins íslenska banka.

Aðspurður sagði Darling fjármálaráðherra að ríkið muni ekki tryggja innistæður sveitafélaga á reikningunum heldur aðeins einstaklinga.

Í frétt The Daily Telegraph af málinu kemur fram að um tuttugu sveitafélög hafa lagt fjármagn inn á reikninga Icesave, fjármagn sem hleypur á tugum milljóna punda.