Breska samkeppniseftirlitið hefur gagnrýnt endurskoðunarfyrirtækin PwC, Ernst & Young, Deloitte og KPMG fyrir að vera of ráðandi á markaðnum og fyrir að mæta ekki þörfum hluthafa sem skyldi.

Í frétt BBC segir að fyrirtækin fjögur séu endurskoðendur um 90% skráðra breskra fyrirtækja og hafi verið gagnrýnd fyrir að vara ekki nægilega við hruninu 2008.

Breska samkeppniseftirlitið segir að merkja megi þá tilhneigingu hjá fyrirtækjunum að þau einbeiti sér frekar að því að þóknast stjórnendum fyrirtækjanna í stað þess að sinna þörfum hluthafa. Sumir stofnanafjárfestar séu sérstaklega óánægðir með ársreikninga fyrirtækja. Haft er eftir starfsmanni eftirlitsins að stjórnendur hafi hvata til þess að mála stöðu viðkomandi fyrirtækja í sem björtustum litum, en hagsmunir hluthafa séu aðrir.

Þá sé heppilegt fyrir hluthafa og fyrirtæki að fyrirtækin skipti með reglubundnu millibili um endurskoðendur. Stjórnendur vilji hins vegar halda sig hjá endurskoðendum sem þeir þekkja.