Breska fjármálaeftirlitið, FSA (Financial Serivices Authority), rannsakar nú hvort komið hafi verið af stað lygasögum um slæma stöðu Halifax´s Bank of Scotland (HBOS) sem er fimmti stærsti banki í Bretlandi. Eftir að markaðurinn hafði verið opinn í klukkutíma í gær höfðu hlutabréf HBOS fallið um 17%. Í kjölfarið neitaði talsmaður bankans því að bankinn ætti í nokkrum vandræðum.

„Þetta er algjörlega út í hött. HBOS er fjárhagslega ein sterkasta stofnun heimsins“ hefur The Guardian eftir talsmanni bankans, en þessi tilkynning var gefin út eftir að markaðir höfðu verið opnir í klukkustund.

Í kjölfarið sendi Englandsbanki frá sér fréttatilkynningu og hafði samband við fréttastofur og neitaði sögusögnum um að bankinn hefði veitt HBOS neyðarlán. Englandsbanki sagði það ekki rétt að til stæði að hætta við að gefa starfsmönnum páskafrí vegna neyðarfunda um ástand bankamála þar í landi.

Tveimur tímum seinna, á hádegi, tilkynnti FSA að þeir muni rannsaka viðskipti með hlutabréf HBOS. Þegar markaðurinn lokaði höfðu bréfin fallið um 7%. FSA sá einnig ástæðu til að vara viðskiptamenn kauphallarinnar í London við því að það að dreifa sögusögnum um fyrirtæki í hagnaðarskyni væri misnotkun á markaði, sem er glæpur.

Stjórnandi Englandsbanka, Mervyn King, fundar í dag með bankastjórum fimm stærstu banka Englands. Fundurinn var ákveðinn fyrir viku síðan í tengslum við hrun Bear Stearns bankans en talið er að staða HBOS verði einnig rædd á fundinum.