Breska fjármálaeftirlitið (FSA) eða Varðhundurinn eins og stofnunin er oft kölluð í Bretlandi, hefur nú viðurkennt að hafa gert mistök vegna afskiptaleysi af Northern Rock bankanum sem breska ríkið þjóðnýtti nýlega.

Á vef BBC kemur fram að of fáir hafi fylgst með bankanum, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að vitað var að bankinn væri í vandræðum. „Það var skortur á nákvæmri yfirsýn og eftirliti,“ er haft eftir talsmanni FSA. Þá kemur fram að stofnunin muni breyta starfsreglum sínum í framhaldinu.

Eins og fyrr segir var bankinn þjóðnýttur af breska ríkinu í febrúar eftir að hafa tapað miklu fé vegna undirmálslána. Þá hefur stjórn bankans tilkynnt um fjöldauppsagnir en um 2.000 manns verður sagt upp fyrir árið 2011 samkvæmt tilkynningu bankans frá því um miðjan mars. Þá skuldar bankinn Englandsbanka um 25 milljarða punda.

„Það er greinilegt að athugun okkar á Northern Rock síðasta sumar, þegar markaðir fóru niður á við var ekki ásættanleg,“ sagði Hector Sants, forstjór breska fjármálaeftirlitsins. Hann bætti því þó við að ekki væri hægt að segja af eða á hvort betri athugun hefði bjargað bankanum. Þetta sagði hann á sama tíma og hann kynnti nýjar starfsreglur stofnunarinnar.

Hann bætti því við að sérstaklega yrði lög áhersla á að auka mannafla stofnunarinnar og unnið verði í því að ráða fólk með reynslu úr fjármálalífinu.

Viðskiptaritstjóri BBC, Robert Peston segir í athugasemdum um skýrslu FSA að það sem veki mesta athygli væri að svo virðist sem FSA hafi gert ráð fyrir því að Englandsbanki myndi hvort eð er bjarga þeim fjármálafyrirtækjum sem illa færu og þess vegna hafi stofnunin ekki lagt meira púður í eftirlit sitt.

„Það staðfestir að FSA var að ýta á Englandsbanka að dæla meira fjármagni í hagkerfið í sumar, sem bankinn síðan neitaði að gera enda væri það óformleg björgun þeirra fjármálafyrirtækja sem illa hafa farið að ráði sínu,“ sagði Peston.