Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) er sögð rannsaka sérstaklega þátt Deutsche Bank í viðskiptafléttu Kaupþings og stórra viðskiptamanna bankans á skuldatryggingaafleiðum á árinu 2008. Þetta kemur fram á vefsíðu breska blaðsins The Guardian í kvöld. Auk Deutsche Bank eiga Kevin Stanford, Karen Millen og fyrrverandi forstjóri Katsouris Fresh Foods, Tony Yerolemou, aðild að málinu þótt minna sé gert úr þætti þeirra í umfjöllun Guardian. Bakkavör yfirtók Katsouris og því hefur forstjórinn fyrrverandi tengsl við Bakkavararbræður í gegnum þau viðskipti.

Eins og komið hefur fram í íslenskum fjölmiðlum, sem hafa lýst þessum viðskiptum ýtarlega, snýst málið um meinta markaðsmisnotkun stjórnenda Kaupþings, Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar. Er meðal annars vitnað í persónulegt bréf Sigurðar, sem hann sendi til vina og vandamanna og fjallað var um í fjölmiðlum, þar sem hann lýsti því að Deutsche Bank hefði átt frumkvæði að þessum viðskiptum. Í þeim var völdum mönnum, meðal annars Skúla Þorvaldssyni, lánað samtals 500 milljónir evra til að kaupa skuldatryggingarafleiður á Kaupþing (CLN). Með þessari aðgerð átti að sýna fram á hvað þessi markaður væri grunnur og auðvelt að hafa áhrif á verð skuldatrygginga. Áhætta viðskiptamannanna var sögð engin en hagnaðarvonin mikil. Sheikinn Al-Thani tengdist þessum viðskiptum einnig en ekki er minnst á hann í grein Guardian.

Lesa má grein The Guardian hér .