Bresk lögregluyfirvöld undirbúa sig nú undir miklar mótmælaöldur í sumar en búist er við almenningur af miðstétt taki undir áskoranir aktívista sem vinna að því að skipuleggja mótmæli fyrir framan fjármálastofnanir á næstu mánuðum, þá sérstaklega þegar uppsagnarfrestur þeirra sem þegar hefur verið sagt upp rennur út.

Frá þessu er greint í breska blaðinu The Daily Telegraph en þar er breska óeirðarlögreglan sögð undirbúa sig undir „summer of rage“ eða óeirðasumar í lauslegri þýðingu.

Blaðið hefur eftir David Hartshorn, varðstjóra Metropolitan Police (sem er óeirðardeild lögreglunnar) að búast megi við öldu mótmæla með auknu atvinnuleysi og frekari samdrætti í hagkerfinu.

Hann segist reikna með því að bankar og fjármálastofnanir, sem enn greiða stjórnendum sínum háar tekjur þrátt fyrir að hafa fenið neyðarlán úr vösum skattgreiðenda, séu augljóslega skotmark mótmælenda og lögreglan hafi þegar haft afspurnir af því að mótmæli verði boðuð við þær stofnanir.

Haft er eftir Hartshorn að „þekktir aktívistar“ séu nú meira áberandi en áður en upplýsingar lögreglunnar sýna að þessir aðilar geti með skömmum fyrirvara boðað til sín talsverðan fjölda til að taka þátt í mótmælum. Þar er helst um að ræða ungt fólk og stúdenta en með auknu atvinnuleysi sé auðvelt að boða þá sem ekki eru að vinna til að taka þátt í mótmælum.

„Þessir aðilar eiga mjög auðvelt með að hafa áhrif á fólk en enn sem komið er hefur þeim ekki tekist að ná saman miklum fjölda til að taka þátt í mótmælum,“ segir Hartshorn og segir að greiningardeildir lögreglunnar vinni dag og nótt í því að meta hættuna á óeirðum.

„Það er augljóst að með frekari samdrætti í hagkerfinu, auknu atvinnuleysi og kaupmáttarskerðingu breytist það mjög hratt. Með skömmum fyrirvara gæti mikill fjöldi fólks safnast saman og þá þurfum við að vera tilbúnir.“

G20 gæti komið mótmælum af stað

Hartshorn segir að lögreglan undirbúi sérstaklega fund 20 stærstu iðnríkja heims (G20) sem haldinn verður í Lundúnum í apríl lögreglan býst við að fundurinn verði upphafi mikillar mótmælaöldu, byrji hún ekki fyrr.

Fram kemur í frétt Telegraph að nokkuð hafi verið um mótmæli í Evrópu vegna efnahagsástandsins, meðal annars á Íslandi, Frakklandi og Lettlandi.

Þá hafi um 120 þúsund manns gengið götur Dyflinnar á Írlandi á laugardaginn til að mótmæla efnahagsástandinu og aðgerðum írsku ríkisstjórnarinnar. Þar fór þó allt friðsamlega fram, svo langt sem það nær, en írska lögreglan hafði þó mikinn viðbúnað.