Gengi sterlingspunds gagnvart evru féll töluvert í morgun og hefur ekki verið lægra í sextán mánuði. Ástæðan er sú ákvörðun greiningarfyrirtækisins Moody's að lækka lánshæfiseinkunn breska ríkisins úr AAA í Aa1. Þá eru horfur neikvæðar að mati Moody's

Gert er ráð fyrir því að nýjar tölur um hagvöxt, sem birta á í vikunni, leiði í ljós að breska hagkerfið hafi dregist saman á fjórða ársfjórðungi 2012 líkt og franska hagkerfið og það þýska.

Í frétt Financial Times er haft eftir Shahid Ikram, yfirmanni eignastýringarfyrirtækisins Aviva Investors, að ákvörðun Moody's hafi ekki komið öllum á óvart. Hann gerir ráð fyrir því að áhrif lækkunarinnar muni frekar hafa áhrif á gengi pundsins en ávöxtunarkröfu breskra ríkisskuldabréfa.