Englandsbanki hefur greint frá því að fimm, tíu og tuttugu punda seðlar bankans muni áfram innihalda tólg sem unnin er úr dýrafitu. Nýir fimm og tíu punda seðlar hafa orðið fyrir töluverðri gagnrýni frá fólki sem aðhyllist vegan lífsstíl. Þegar nýr fimm punda seðillinn var kynntur til leiks, söfnuðust yfir 100 þúsund undirskriftir þar sem þess var krafist að seðillinn yrði tekinn úr umferð.

Samkvæmt frétt Bloomberg endurskoðaði Englandsbanki framleiðsluferli nýja seðla og komst að þeirri niðurstöðu að eina hráefnið sem gæti komið í stað dýrafitunnar væri pálmaolía. Bankinn hefur hins vegar gert ráð fyrir því að það muni kosta 16,5 milljónir punda að skipta seðlunum út auk þess sem niðurstaðan var sú að pálmaolían væri ekki jafn umhverfisvæn og tólgin úr dýrafitu. Því var það niðurstaðan að enginn breyting yrði gerð á framleiðslunni.

Bretar virðast þó almennt ekki vera sáttir við notkun tólgarinnar í seðlum. Samkvæmt könnun sem Englandsbanki gerði, voru 88% aðspurðra mótfallnir því að tólgin væri notuð við framleiðslu seðlanna. Á sama tíma voru rétt tæplega helmingur mótfallinn því að pálmaolía yrði notuð í framleiðsluna.

Englandsbanki kynnti á dögunum nýjan tíu punda seðil . Seðilinn er plastkenndur og gerður með sama hætti og nýr fimm punda seðill sem fór í umferð síðasta haust. Er seðillinn þannig gerður að hann á að vera vatnsfráhrindandi og á að endast lengur en sá fyrri. Þá verður nýr tuttugu punda seðill sem framleiddur er með sama hætti kynntur til leiks árið 2020.