Bresk stjórnvöld hyggjast nú blása lífi í fasteignamarkaðinn þar í landi. Aðgerðir þess efnis voru kynntar í dag.

Í Vegvísi Landsbankans segir að fasteignamarkaðurinn í Bretlandi hafi verið í töluverðri lægð undanfarna mánuði og samkvæmt Nationwide Building Society hafi fasteignaverð lækkað um 10,5% síðastliðið ár.

Í gær voru svo einnig birtar tölur sem sýndu að ekki hefðu áður verið samþykkt færri húsnæðislán í einum mánuði en í júlí frá því mælingar hófust árið 1999.

Vegvísir Landsbankans segir að stimpilgjöld í Bretlandi séu 1% af húsnæðisverði en hingað til hafi kaupendur að húsnæði undir 125.000 sterlingspundum verið undanþegnir stimpilgjöldum. Það verðþak hafi nú verið hækkað í 175.000 sterlingspund í eitt ár.

Talið er að þessi aðgerð muni kosta breska ríkið um 600 milljónir sterlingspunda. vaxtalaus lán hafa einnig verið kynnt til sögunnar til fyrstu kaupenda sem hafa árstekjur undir 60.000 sterlingspundum. Lánað verður fyrir allt að þriðjungi kaupverðs og verða lánin til allt að fimm árum. Að lokum eru áætlanir um að aðstoða fólk sem er í vandræðum með afborganir af húsnæðislánum sínum.