Breska ríkið hefur selt 6% hlut sinn í bresku fjármálasamstæðunni Lloyds Banking Group fyrir 3,2 milljarða punda, jafnvirði tæpra 390 milljarða íslenskra króna. Við þetta fer eignarhlutur breska ríkisins í Lloyds úr 38,7% í 32,7%.

Lloyds Banking Group varð til við yfirtöku Lloyds á breska bankanum HBOS síðla árs 2008. Yfirtakan var heldur óheppilega tímasett og varð úr að breska ríkið varð að leggja bankanum til aukið fjármagn í kreppunni um haustið í skiptum fyrir allt upp undir 43,4% eignarhlut þegar mest lét. Viðskiptin voru á sínum tíma gerð á meðalgenginu 73,6 pens á hlut. Til viðmiðunar er gengi viðskiptanna nú 75 pens á hlut.

Hlutabréfin voru að sögn BBC seld stofnanafjárfestum en ekki á markaði.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir breska ríkiskassann hagnast um 61 milljón punda á viðskiptunum. Robert Peston, ritstjóri viðskiptafrétta hjá BBC, segir þetta hagstæða sölu fyrir ríkið og bendir á að ef fjármálaráðherra Bretlands hefði sagt fyrir ári að mögulegt væri að selja hlutinn með hagnaði þá myndi hann telja það fáránlegt.