Breska ríkisstjórnin hyggst selja sjónvarpsstöðina Channel 4 fyrir lok árs 2023 en talið er að söluverðið gæti numið yfir einum milljarði punda, eða yfir 170 milljörðum króna. Financial Times greinir frá.

Haft er eftir talsmanni bresku ríkisstjórnarinnar að ráðherrar hennar hafi talið að eignarhald ríkisins væri að halda aftur af sjónvarpsstöðinni í ljósi hraðra breytinga á landslagi fjölmiðla. Áform ríkisstjórnarinnar fela í sér að endurfjárfesta söluandvirðinu í skapandi verkefni, þar á meðal í sjálfstæða framleiðslu á myndefni.

Forsvarsmenn Channel 4 sögðust í tilkynningu hafa orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðunina og bættu við að einkavæðing geti falið í sér langt ferli.

Sjá einnig: Breskur ríkismiðill fjárfestir í kannabis

Sjónvarpsstöðin var stofnuð árið 1982 og hefur síðan nær alfarið verið fjármögnuð af auglýsingatekjum. Vinsældir Channel 4 hafa þó minnkað undanfarin ár, m.a. vegna samkeppni við streymisveitur á borð við Netflix. Markaðshlutdeild sjónvarpsstöðvarinnar féll um 3,7% á milli ára og mældist um 10% í á síðasta ári.