Bresk stjórnvöld ákváðu seint í gær að koma að björgun breska flugfélagsins Flybe sem var á barmi gjaldþrots. Talið er að Flybe hafi fengið greiðslufrest á 106 milljóna punda skuld við bresk skattayfirvöld, um 17 milljarða króna, vegna ógreiddra farþega skatta samkvæmt frétt The Times um málið.

Willie Walsh, forstjóri móðurfélags British Airways, segir að með björgunaraðgerð ríkisins sé verið að misfara með almannafé. Vel stæðir hluthafar félagsins ættu að sjá sjálfir um að koma því til bjargar. Flybe er í eigu fjárfestingafélags, sem leitt er af Virgin Atlantic, flugfélagi Richard Branson en meðal hluthafa í því félagi eru Delta Air Lines, sem lýst er sem eitt arðbærasta flugfélag heims í frétt The Times.

Flybe hafi fengið greiðslufrest af sköttum fram á vorið til að koma því í gegnum lausafjárvandræði sín. Á móti hafi fjárfestar lofað að leggja 20 milljónir punda, um 3,2 milljarða króna í félagið.

Þá hefur breskum ráðamönnum einnig tekið að reita umhverfisverndunarsinna til reiði. Hluti af aðgerðarpakkanum felst í að endurskoða skatta á innanlandsflug. 2.400 manns starfa hjá Flybe, sem þjónustar 25 breska flugvelli en flugfélagið flutti átta milljón farþega í fyrra, flesta í bresku innanlandsflugi. Árið 2014 flaug félagið beint til Íslands frá Birmingham.