Breska ríkið leitar nú að kaupendum fyrir 40% hlut þess í Eurostar hraðlestinni sem flytur farþega milli Lundúna, Parísar og Brussel. BBC News greinir frá málinu.

Samkvæmt skuldaáætlun bresku ríkisstjórnarinnar er áætlað að breska ríkið selji eignir fyrir um 20 milljarða punda fyrir árið 2020 og yrði salan á Eurostar liður í því.

„Markmið okkar er að afla 20 milljarða punda með eignasölu fyrir árið 2020 og salan fæli í sér verulegt framlag til þess að grynnka á skuldunum,“ segir George Osborne, fjármálaráðherra Breta. „Ég er fullviss um að við getum haldið áfram að taka ákvarðanir til þess að endurreisa breskan efnahag og grynnka á skuldum okkar.“