Þingmenn breska þingsins samþykktu í gær tillögu Theresu May forsætisráðherra Bretlands um að landið hefji formlegt útgönguferli úr Evrópusambandinu 31. mars komandi.

Verður þá hin svokallaða grein 50 í Lisbon sáttmálanum virkjuð, sem hefur tveggja ára ferli sem lýkur með því að Bretland verður formlega skilið við Evrópusambandið.

Hefur ekkert formlegt gildi

Atkvæðagreiðslan um þingsályktunartillöguna hefur í raun ekkert formlegt gildi, en 448 þingmenn studdu hana meðan 75 þingmenn kusu gegn henni.

Fyrst studdu þó 461 þingmenn breytingartillögu Verkamannaflokksins um að ríkisstjórnin muni fyrst birta áætlun um hvernig útgönguferlinu verði háttað en 89 kusu gegn henni.

Búist var við því fyrir fram að ýmsir þingmenn Íhaldsflokks Theresu May forsætisráðherra myndu styðja breytingartillöguna, svo hún lýsti yfir stuðningi við hana á síðustu stundu, gegn því að þingmenn myndu styðja við það að greinin yrði virkjuð á tilsettum tíma.