Bresku matvörukeðjurnar Tesco, Sainsburys, Waitrose, Iceland, M&S og Co-op hafa lofað að sniðganga íslensk fyrirtæki vegna nýhafinna hvalveiða. Í þessu felst að engar íslenskar sjávarafurðir verða keyptar af fyrirtækjum sem eru tengd hvalveiðum á einhvern hátt, enda jafngildir slíkt stuðningsyfirlýsingu við hvalveiðar, að sögn ýmissa samtaka, en ákvörðun bresku keðjanna kemur í kjölfarið af miklum þrýstingi frá umhverfisverndarsamtökum þar í landi, til að mynda Whale and Dolphin Conservation Society (WDSC) og World Society for Protection of animals (WSPA). Hvalveiðar Íslendinga byggjast á lygum, segir Chris Stroud formaður WDCS, en sú fullyrðing að hvalir éti burt verðmæta fiskstofna er uppspuni frá rótum að sögn Stroud.

Eftir tvær vikur mun Alþjóðahvalveiðiráðið hittast, en þá má búast við harðvítugum deilum milli ríkja, en skiptar skoðanir eru um lögmæti og réttmæti hvalveiða innan ráðsins.