Tomas Wilmot var stjórnarformaður Fjárverndar- Verðbréfa árið 2003 en hann var nýlega dæmdur í níu ára fangelsi fyrir svokölluð „kyndiklefasvik“.

Hinn hálfíslenski Tomas Wilmot var stjórnarformaður Fjárverndar-Verðbréfa frá apríl 2003 til október sama ár en hann var nýlega dæmdur í níu ára fangelsi fyrir fjársvik. Fjárvernd- Verðbréf var stofnað árið 2001 meðal annars af Alvöru lífsins, sem var í eigu Árna Þórs Vigfússonar og Kristjáns Ra. Kristjánssonar, Sveins Andra Sveinssonar, Jóns Kristins Snæhólm, Sparisjóðs Kópavogs, Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogskaupstaðar, auglýsingastofunnar Nonna og Manna og RBD Holdings SA í Lúxemborg. Snemma árs 2003 var félaginu vísað úr Kauphöllinni vegna vangoldinna gjalda í kjölfar fjárhags- og rekstrarerfiðleika. Félagið komst svo aftur í viðskipti í Kauphöllinni um haustið í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar. Endurskoðandi félagsins var Stefán Hilmarsson.

Dæmdur í níu ára fangelsi

Tomas Wilmot var dæmdur í níu ára fangelsi og voru tveir synir hans, Kevin og Christopher, dæmdir meðsekir og hlutu báðir fimm ára fangelsisdóm. Kevin sat einnig í stjórn Fjárverndar-Verðbréfa á árinu 2003. Íslenska Fjármálaeftirlitið aðstoðaði við rannsókn breska fjármálaeftirlitsins með því að leggja fram skriflegan vitnisburð um umsókn bresks fyrirtækis í eigu Tomasar um að fara með virkan eignarhlut í íslensku verðbréfafyrirtæki árið 2003. FME hafnaði umsókn Tomasar og sagði hann sig í kjölfarið úr stjórn verðbréfafyrirtækisins. Sonur hans, Christian Wilmot, sat þó áfram í stjórn félagsins enda áttu þeir um 30% í félaginu. Skipulögðu feðgarnir og stjórnuðu svokölluðum kyndiklefum (e. boiler rooms) þar sem fjárfestum eru seld verðlítil eða jafnvel verðlaus verðbréf eða verðbréf í fyrirtækjum sem hreinlega eru ekki til. Kyndiklefarnir voru sextán talsins og seldu hlutabréf til 1.700 breskra fjárfesta frá 2003 til 2008. Voru 27,5 milljónir sterlingspunda lagðar inn á breska bankareikninga í þessum viðskiptum og hluti þeirra fluttur áfram á aflandsreikninga.

Nánar má lesa um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.