Smásala á Bretlandseyjum jókst um 0,7% í september og er þetta annar mánuðurinn í röð sem vöxtur verður á smásölumarkaðinum. Vöxturinn í september er mun meiri en í ágúst þegar smásala jókst um 0,2%. Mestur var söluvöxturinn innan matvælageirans eða sem nemur 1,4%. Einnig var töluverður vöxtur í sölu á fatnaði og skóm eða sem nemur 0,7%. "Niðurstöðurnar komu markaðsaðilum á óvart enda bjuggust sérfræðingar á vegum Bloomberg við töluvert minni vexti eða sem nemur 0,3%. Þessar tölur eru taldar vera til marks um að smásölumarkaðurinn sé að taka við sér en enn er þó of snemmt að fullyrða að um undirliggjandi þróun sé að ræða," segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar kemur ennfremur fram að breski smásölumarkaðurinn hefur átt undir högg að sækja að undanförnu sökum minni vaxtar í einkaneyslu. Hagvöxtur mældist til að mynda aðeins 1,5% á öðrum fjórðungi ársins sem að miklu leyti var rakið til minni vaxtar einkaneyslu. Sérfræðingar gera ráð fyrir lítillega meiri vexti á þriðja ársfjórðungi eða 1,6% enda benda fyrrgreindar tölur til þess að einkaneyslan sé að aukast.