Stjórnendur fimm stærstu banka í Englandi hvöttu stjórnanda Englandsbanka, Mervyn King, til að auka greiðslugetu breska hagkerfisins, á fundi í dag.

Fundurinn var hefðbundinn fundur þessara aðila en samkvæmt frétt The Guardian báðu bankastjórarnir fimm King að setja meira fjármagn inn í efnahagskerfið, svo að bankarnir lendi ekki í vandræðum vegna lítillar greiðslugetu.

Fyrir fundinn veitti Englandsbanki 5 milljörðum punda inn á markaðinn í tilraun til að losa um skort á reiðufé sem hefur verið til staðar. Bankinn hefur tilkynnt að þessi neyðarfjármögnun muni halda áfram þar til stýrivextir verða ákveðnir aftur snemma í apríl.