Breskir bankar eiga í aukinni hættu á að lenda í vandræðum vegna skuldavanda Evruríkjanna. Englandsbanki varar við hættunni í nýjustu skýrslu sinni um fjármálastöðugleika.

Í skýrslunni eru bankar beðnir um að auka lausafé sitt til að vera í stakk búnir til að mæta mögulegu tapi. Það eiga þeir að gera meðal annars með því að draga úr arðgreiðslum og bónusgreiðslum.

Þá varar Englandsbanki við frekari lækkun á breskum húsnæðismarkaði, að því er kemur fram á vefsíðu BBC. Fram kemur að breskir banka þurfi á næstu tveimur árum að endurfjármagna alls um 500 milljóna punda lán. Þar af eru 200 milljónir tilkomnar vegna fjárhagsaðstoðar ríkissjóðs og Englandsbanka.