Hagnaður af kjarnastarfsemi fimm stærstu banka bretlands jókst um 45% í fyrra og nam 31,5 milljörðum punda, andvirði um 5.900 milljarða króna. Þessi hagnaður var hins vegar að verulegu þurrkaður út vegna blöndu af breyttum reglum og eigin mistaka bankanna, að því er segir í nýrri skýrslu KPMG. Um er að ræða bankana Barclays, HSBC, Lloyds Banking Group, RBS og Standard Chartered.

Endanlegur hagnaður bankanna dróst saman um 40% og nam 11,7 milljörðum punda.

Meðal þess sem hafði áhrif voru greiðslur á varúðarreikninga vegna greiðslukortatrygginga upp á 7,4 milljarða punda. Slíkar tryggingar, sem ganga undir skammstöfuninni PPI í Bretlandi, eru afar dýrar tryggingar sem fólk hefur keypt þegar það kaupir hluti með greiðsludreifingu. Í mörgum tilvikum hafa dómstólar komist að því að bankar hafi selt fólki slíka tryggingu sem ekki hafði neitt við hana að gera og gert bönkunum að endurgreiða.

Þá námu aðrar sektargreiðslur einum 4,7 milljörðum punda og því til viðbótar kemur bókfært tap upp á 12,8 milljarða punda vegna eigin skulda bankanna. Bankarnir eiga sem sagt töluvert af eigin skuldabréfum og nú þegar lánshæfi þeirra hefur farið batnandi hefur ávöxtunarkrafan á skuldabréfin lækkað. Það þýðir að bókfært virði skuldabréfanna hefur minnkað.