Um 70 þúsund breskir Uber bílstjórar munu njóta réttinda til lágmarkslauna, orlofsgreiðslna og mótframlags í lífeyrissjóð samkvæmt ákvörðun akstursþjónustunnar í kjölfar taps þess fyrir dómstólum. BBC greinir frá .

Bílstjórarnir fá þó ekki full réttindi fastráðinna starsfmanna, en fyrirtækið sagði í yfirlýsingu vegna málsins að það vildi með þessu sýna að það væri „viljugt til að breytast“, og bætti við að ólíklegt væri að fargjöld myndu hækka. Lágmarkslaun í Bretlandi eru rétt rúmar 1.500 krónur á tímann á landsvísu.

Greiningaraðilar eru þó á öðru máli, og benda á að fargjöld í Kaliforníufylki í Bandaríkjunum hafi hækkað í kjölfar sambærilegs dóms og breytinga.

Verkalýðsleiðtogar og sérfræðingar í vinnumarkaðsmálum segja breytinguna munu hafa mikil og víðtæk áhrif á hið svokallaða hark-hagkerfi (e. gig economy) þar í landi.