Skortur á koltvíoxíð (CO2) í Bretlandi gæti orðið þess valdandi að bjórskortur skapist í landinu samkvæmt frétt BBC . Ástæðan er sú að óvenju margar verksmiðjur sem framleiða koltvíoxíð eru lokaðar vegna viðhalds. Þetta staðfestir hollenski bjórframleiðandinn Heineken sem hefur gefið það út að unnið sé með viðskiptavinum að því að lágmarka mögulega röskun í framleiðlsu. Þá hefur Coca Cola í Evrópu einnig gefið svipaða yfirlýsingu frá sér.

Samkvæmt iðnaðarmiðlinum Gasworld hefur ástandið ekki verið verra í Norður-Evrópu í áratugi. Koltvíoxíð er bæði notað við bjórframleiðslu auk þess sem efnið er notað við að dæla bjór úr bjórdælum. Þá er efnið einnig notað við framleiðslu á gosdrykkjum og við kjötframleiðslu.

Samtök kráa og bjórframleiðenda í Bretlandi hafa greint frá því að skorturinn sé nú þegar farinn að valda stöðvun í framleiðslu. 82% af bjór sem drukkinn er í Bretlandi er framleiddur í landinu. Þá hafa samtökin einnig lagt áherslu á það við meðlimi sína að það koltvíoxíð sé notað verður að vera hæft til matvælaframleiðslu. Því sé ekki hægt að fara krókaleiðir til þess að leysa vandan.