Breskum sendiráðum í Evrópu hefur verið sagt að búa til neyðaráætlanir um hvernig aðstoða megi breska ferðamenn við að komast heim ef evran hrynur. Kemur þetta fram í frétt breska blaðsins Telegraph.

Er þar haft eftir ónefndum háttsettum embættismanni að bresk stjórnvöld líti nú svo á að það sé ekki lengur spurning um hvort heldur hvenær evran hrynur. Ekki sé hægt að treysta á að greiðslukerfi í evrulöndunum virki eftir slíkt hrun og því ekki gefið að breskir ferðamenn geti tekið peninga út til að kaupa bensín eða flugmiða heim.

Hinn ónefndi embættismaður sagði að hagsmunum Breta væri best borgið ef leiðtogum evrusvæðisins tækist að fresta hruninu sem lengst, því það gæfi Bretum meiri tíma til að búa sig undir hrunið.