Breskir fisksalar á Humbersvæðinu gengu í að koma gjaldeyrisfærslum til Íslands í lag.

Tilgangur þeirra var að tryggja áframhaldandi fiskútflutning frá Íslandi. Gjaldeyrisstreymi að og frá Íslandi hefur verið allt að því alstíflað undanfarnar vikur í kjölfar bankahrunsins. Meðal annars hafa útflytjendur átt í erfiðleikum að flytja endurgjald útflutningsvara sinna heim til Íslands.

Fréttastofa ríkisútvarpsins skýrði frá þessu og vitnaði í breska sjávarútvegsfréttavefinn Fishupdate. Þar segir frá því að fiskmörkuðum og fiskvinnslu á Humbersvæðinu hafi verið ógnað af þessu ástandi og þeir gengu í að leysa málið.

Þar sáu menn enda fram á að fá ekki fisk frá Íslandi þar sem ekki var hægt að greiða fyrir hann vegna lokaðra gjaldeyrislína, ekki var hægt að millifæra gjaldeyri til landsins.

Breskir bankar hafi misskilið stjórnvöld sín og beitingu þeirra á hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum þannig að ekki mætti eiga viðskipti við landið sem heild.

Þegar Humber-mönnum varð þetta ljóst að þeir væru fórnarlömb deilna sem þeim koma ekkert við, gengu þeir í málið.

Fisksölusamtök Grimsby höfðu snör handtök og töluðu við þingmann Grimsby, Austin Mitchell, og höfðu samband við Englandsbanka. Í framhaldinu var bönkunum gert ljóst að þeir gætu millifært gjaldeyri til Íslands.

Í samtali við Breska útvarpið, BBC, sagði Steve Norton, formaður Fisksölusamtakanna, að samtökin hefðu lagt hart að sér til að koma þessu í kring. Í Grimsby væru unnin 27.000 tonn á ári af íslenskum fiski og veruleg hætta hafi verið á að fjölmörg störf á svæðinu töpuðust.

Þingmaðurinn, Austin Mitchell, sagði það hefði verið skelfilegt fyrir svæðið ef málunum hefði ekki verið kippt í liðinn, fiskmarkaðurinn hefði komist í þrot og "Fish & chips" staðir um allt norðanvert England hefðu orðið fisklausir.