David Cameron, formaður breska Íhaldsflokksins sagði við fjölmiðla í dag að ekki Íhaldsflokkurinn myndi ekki lækka skatta til að byrja með þó þeir ynnu næstu kosningar.

Ástæðuna sagði Cameron vera að Verkamannaflokkurinn hefði skilið efnahagskerfið þannig eftir sig að ekkert svigrúm væri til skattalækkana til að byrja með.

Nýlegar kannanir sýna Íhaldsflokkinn með 16% forskot á Verkamannaflokkinn ef gengið yrði til kosninga nú.

„Við verðum að viðurkenna að þótt við vinnum næstu kosningar er ljóst að fjármagn liggur ekki á lausu,“ sagði Cameron við fjölmiðla. „Við komum til með að þurf að segja nei nokkuð oft en vonandi getum við þó fljótlega farið að segja já við þeim atriðum sem við viljum framkvæma.“

Cameron sagði að efnahagur landsins væri að niðurlotum kominn eftir stjórn Verkamannaflokksins og skattbyrði almennings hefði aukist verulega. „Auk þessu hafa skuldir ríkissjóðs aukist allverulega og það er eitthvað sem þarf að greiða að lokum,“ sagði Cameron.

Vilja spara fjármagn

Fyrrverandi leiðtogi Íhaldsflokksins, William Hague sagði í viðtali við BBC að skattalækkanir þyrftu að ráðast eftir efnahag, ekki pólitík. „Það er óvíst að aðstæður bjóði upp á skattalækkanir,“ sagði Hague. Hann tók þó fram að til langs tíma litið myndu skattar lækka verulega.

Philip Hammon, fjármálaráðherra í skuggaráðuneyti Íhaldsflokksins sagði í samtalið við Sunday Telegraph að lögð yrði áhersla á að spara fjármagn byggja upp ríkissjóð.

„Við munum spara peninga, stöðva óþarfa útgjöld og þegar kemur að næstu kosningum getum við sýnt fram á að til sé fjármagn til að lækka skatta,“ sagði Hammon.

Óstöðugur flokkur, segir Cooper

Fjármálaráðherra Bretlands, Yvette Cooper gaf lítið fyrir stefnu Íhaldsmanna. „Nýr dagur – ný stefna Íhaldsflokksins. Hvernig ætla þeir að stjórna með stöðugleika þegar stefna þeirra er ekki einu sinni stöðug?“ sagði Cooper.