Um 59% flokksmanna breska Íhaldsflokksins vilja að Bretland gangi úr Evrópusambandinu. Hins vegar vilja aðeins 31% að ríkið verði áfram aðildarríki. Þetta kemur fram í nýrri könnun YouGov sem unnin var fyrir The Times.

Því er ljóst að flokksmenn Íhaldsflokksins eru ekki sammála David Cameron forsætisráðherra og meirihluta ríkisstjórnar hans.

YouGov spurði einnig um hver ætt að taka við sem foringi Íhaldsflokksins af David Cameron, sem hefur tilkynnt að hann muni ekki sitja út kjörtímabilið. Könnunin var gerð eftir að Boris Johnson tilkynnti um að hann vildi að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið.

Boris Johnson skorar langhæst þar, en 43% vilja að hann taki við embættinu. Fylgið við Johnson var einnig mælt rétt áður en að hann tilkynnti um afstöðu sína, en þá fékk hann 38%. Stuðningur við Johnson hefur því aukist mikið eftir að hann fór gegn David Cameron í Evrópusambandsmálinu.

Næstur á eftir Johnson er George Osbourne fjármálaráðherra en 22% vilja að hann taki við af Cameron. Þriðja er Theresa May með 19% fylgi.