Bretar eru byrjaðir að ganga að kjörborðinu í sögulegum kosningum um aðild landsins að Evrópusambandinu. Síðast þegar íbúar landsins voru spurðir álits um aðild var árið 1975 en allar skoðanakannanir sína að mjög mjótt er á mununum milli þeirra sem vilja ganga úr sambandinu og halda landinu í því.

Framtíð Camerons í húfi

Er talið að framtíð David Cameron sem forsætisráðherra velti á því hvort honum hafi tekist að sannfæra íbúa Bretlands um að halda áfram aðild.

Ef Bretar ákveða úrsögn myndi það hafa töluverðar breytingar í för með sér fyrir landið sem gæti þá gert eigin samninga um fríverslun við lönd hvar sem er í heiminum, en það myndi jafnframt geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir Evrópusamrunann og ýtt undir kröfur um breytingar eða jafnvel úrsögn fleirri ríkja.

Sjálfstætt Bretland

Talsmaður þeirra sem vilja yfirgefa sambandið, Boris Johnsson, fyrrum borgarstjóri í London hefur hvatt kjósendur til að nýta tækifærið og losa landið undan hlekkjum Brussels og líta á daginn í dag sem sjálfstæðisdag.

Vonast stuðningsmenn úrsagnar til að virkja kjósendur af verkalýðsstétt sem eru pirraðir af afleiðingum alþjóðavæðingar og mikils innflutnings fólk og þeir komi í miklum mæli á kjörstaði til að kjósa gegn vilja helstu áhrifamanna landsins sem vilji halda því í sambandinu.

Áhrif á markaði

Breska pundið hækkaði á mörkuðum í dag um 0,3% og FTSE 100 vísitalan hækkar einnig um 0,8% en hvort tveggja lækkaði nokkuð þegar skoðanakannanir sýndu meirihluta fyrir úrsögn.

Breyttist það eftir að kosningabaráttan var stöðvuð í þrjá daga í kjölfarið á morði á bresku þingkonunni Jo Cox sem barðist fyrir áframhaldandi aðild.

Velta á kjörsókn

Kosningarnar munu líklega velta fyrst og fremst á kjörsókn, en forsætisráðherrann vonast eftir að hún verði um og yfir 70% því stuðningsmenn aðildar veðja á að óvissir kjósendur hallist frekar að því að kjósa með óbreyttu ástandi líkt og í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslum í landinu.

Var það niðurstaðan í sjálfstæðiskosningunni í Skotlandi, kosningunni 2011 um hvort halda ætti í einmenningskjördæmakerfið og fyrri kosningunni um aðild að ESB árið 1975. Jafnframt treystir Cameron og stuðningsmenn aðildar á að ungt fólk sem er líklegra til að vilja halda áfram aðild mæti og kjósi.