George Osborne fjármálaráðherra hefur kynnt áform um að veita tölvuleikja- og teiknimyndaframleiðendum afslátt á fyrirtækjaskatti. Breytingin tekur gildi í apríl 2013 en tölvuleikjaiðnaðurinn hefur barist fyrir þessu lengi.

Richard Wilson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins Tiga, sagði í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að þetta væri mikilvægt skref fyrir breskt efnahagslíf. Hann sagðist telja að skattaafslátturinn myndi með beinum eða óbeinum hætti vernda 4661 störf, auka framlag þróunarstarfsemi tölvuleikjaiðnaðarins til landsframleiðslu Breta um 283 milljónir punda og skila 172 milljónum punda aftur í ríkissjóð.

George Osborne hefur sagst vilja gera Bretland að þungamiðju tækni og tækninýjunga í Evrópu.