Hópur valdamikilla manna í bresku viðskiptalífi héldu neyðarfund á dögunum til að ræða umdeildar skattabreytingatillögur ríkisstjórnarinnar þar í landi. Fyrirhuguðum breytingum er ætlað að auðvelda breska ríkinu að skattleggja erlendar tekjur fyrirtækja þar í landi. Telegraph segir frá þessu í dag.

Meðal þeirra sem eru í þessum hópi sem kallast Multinational Chairmen's Group (MNCG) eru stjórnarformaður olíuframleiðandans BP, stjórnarformaður British American Tobacco og forstjórar fyrirtækjanna GlaxoSmith-Kline, AstraZeneca og Unilever.

Talsmaður hópsins sagði það hlutverk hlutafélaga að hámarka hag hluthafa sinna. Einn af þeim þáttum sem stuðluðu að slíku væri að starfa í hagfelldu skattaumhverfi. Þetta þýddi þó ekki að alvarlegar hugleiðingar um endurstaðsetningu fyrirtækja væru í gangi. Þó væri skattatengd málefni í sífelldri endurskoðun hjá fyrirtækjum. Forsvarsmenn AstraZeneca ýjuðu þó að því í síðustu viku að hugsanlegt væri að skráningu fyrirtækisins yrði hagrætt í þá veru að skattbyrði yrði gerð léttari.

MNCG hittist tvisvar á ári til að ræða starfsemi fyrirtækja sinna sem og breytingar á viðskiptaumhverfi og efnahagslegu landslagi.