Viðskiptaráð Bretlands hefur kallað eftir frekari stýrivaxtalækkunum, aðeins nokkrum dögum eftir að Englandsbanki lækkaði stýrivexti um 25 punkta í 5,25%. Viðskiptaráðið spáir jafnframt 1,7% hagvexti á þessu ári, sem er nokkru lægra en greiningaraðilar og fjármálaráðuneytið ráðgerir, að því er kemur fram í frétt BBC.

Ráðið sagði að fyrirtæki í Bretlandi hefðu farið illa út úr þeirri lausafjárþurrð sem nú skekur fjármálamarkaði, og minni spurn eftir vörum og þjónustu væri greinileg.

Englandsbanki hefur sagt að nauðsynlegt sé að sameina verðstöðugleika og hagvöxt. Bankinn varð fyrir nokkurru gagnrýni fyrir að lækka vexti ekki meira en raun bar vitni í síðustu viku. Sérfræðingar hafa sagt að veigameira sé að koma í veg fyrir samdrátt í hagvexti heldur en aukna verðbólgu. Matvælaverð og orkuverð hefur að undanförnu hækkað í Bretlandi, sem eykur líkur á að peningamálanefndin fari varlega í vaxtalækkanir.

Seðlabanki Íslands mun tilkynna um stýrivaxtaákvörðun sína þann 14. febrúar næstkomandi, en skiptar skoðanir eru meðal innlendra greiningaraðila hvort vöxtum verði haldið óbreyttym eða lækkaðir.