Breska dreifingarfyrirtækið Wincanton hefur ákveðið að lögsækja bresku matvöruverslunarkeðjuna Iceland vegna ógreiddra reikninga að virði ein milljón punda, sem samsvarar rúmlega 133 milljónum íslenskra króna, segir í frétt breska dagblaðsins Western Daily Press.

Wincanton tók að sér dreifingu fyrir Iceland, sem er að mestu í eigu Baugs og eignarhaldsfélagsins Fons, í norður London árið 2000. Fyrirtækið staðfesti í gær að það hefði ákveðið að lögsækja Iceland.

Heimildarmenn Western Daily Press segja að Wincanton vonist til þess útkljá málið utan dómsala en að Malcom Walker, sem tók við starfi forstjóra Iceland þegar íslensku fjárfestarnir keyptu og afskráðu félagið, vilji fara fyrir rétt með málið.