Framtakssjóði Íslands (FSÍ) og Eignarhaldsfélagi Landsbankans hefur borist bindandi tilboð með ákveðnum fyrirvörum í rekstur Promens. Tilboðið kemur frá RPC Group plc sem skráð er í Bretlandi.

Tilboðið breska félagsins nær til alls útgefins hlutafjár í Promens Group AS, sem er dótturfélag Promens hf. og heldur utan um allan rekstur þess. Tilboðsverðið felur í sér að heildarvirði félagsins sé 399 milljónir evra, en það jafngildir 61,6 milljörðum íslenskra króna, og að virði hlutafjár sé 236 milljónir evra (36,5 milljarðar króna), sem greiðist í reiðufé við afhendingu, samþykki hluthafar tilboðið.

RPC er líkt og Promens alþjóðlegur framleiðandi plastaumbúða fyrir matvælaiðnað, neytenda- og iðnaðarmarkað. Tilboð RPC er m.a. gert með fyrirvara um samþykki hluthafa RPC og viðeigandi stjórnvalda, þ.m.t. samkeppnisyfirvalda, í ákveðnum löndum. Promens hefur verið í eigu FSÍ (49,50%) og Landsbankans (49,91%) síðan árið 2011.

„Promens hefur metnað til að halda áfram uppbyggingu félagsins og færa starfsemi þess inn á nýja alþjóðamarkaði í samstarfi við núverandi og nýja viðskiptavini. Í því haftaumhverfi sem nú ríkir á Íslandi er vandasamt að fjármagna metnaðarfull markmið um alþjóðlegan vöxt. Ég styð hugsanlegan samruna við RPC og tel að í honum felist gott tækifæri fyrir félagið og starfsmenn þess og hyggst þess vegna mæla með tilboðinu við hluthafana,“ segir Hermann M. Þórisson, stjórnarformaður Promens hf.