Eigendur breska prentfyrirtækisins Wyndeham Press Group, sem nú er hluti af 365-fjölmiðlasamstæðunni, eiga í viðræðum við breskt járfestingafélag um sölu á fyrirtækinu og gert er ráð fyrir niðurstöðu á næstu vikum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

"Það mun koma í ljós hvaða félag eigendurnir eiga í viðræðum við á næstu vikum," sagði einn heimildamaður Viðskiptablaðsins í Bretlandi.

Ef fyrirtækið verður selt fyrir áramót er það í annað sinn á árinu, en Dagsbrún keypti félagið fyrir 81 milljón punda, sem samsvarar rúmlega ellefu milljörðum íslenskra króna, í byrjun árs. Dagsbrún hefur verið skipt upp í tvö félög, 364 og fjarskiptafyrirtækið Teymi, en félagið gaf út afkomuviðvörun og tilkynnti um varúðarfærslu að virði 1,5 milljarðar króna vegna sölunnar á Wyndeham Press Group.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins sögðust ekki geta staðfest hve mikið 365-fjölmiðlasamstæðan gæti hugsanlega fengið fyrir Wyndeham Press Group nú, en afkoma félagsins var undir væntingum. Samhliða sölutilkynningunni frá Dagsbrún var afkoma breska félagsins birt fyrir rekstrarárið, sem lauk þann 31. mars, en rekstrarhagnaður félagsins dróst saman í 5,9 milljónir punda úr 9,5 milljónir punda frá sama tíma árið áður.

Sérfræðingar telja það ólíklegt að söluverð félagsins, ef samningar nást við fjárfestingasjóðinn, verði nálægt því verði sem Dagsbrún keypti félagið á og benda á að varúðarfærslan gefi til kynna að afföllin verði töluverð.

Stjórnendur Wyndeham Press segja að ástæðan fyrir slakri afkomu sé aukin orkukostnaður og þrýstingur á verðlækkanir. Einnig fjárfesti félagið 3,5 milljónir punda í félaginu til að straumlínulaga reksturinn en á móti kom að um 150 starfsmönnum var sagt upp. Þrátt fyrir hagræðingar hefur félaginu ekki tekist að standa undir væntingum núverandi eiganda.