*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Erlent 12. desember 2019 19:01

Bresku þingsætin sem skipta sköpum

Kosningarnar í Bretlandi í dag ráða úrslitum um útgöngu úr ESB. Kíkt á þau 20 af 650 kjördæmum sem gætu skipt sköpum.

Ritstjórn
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í heitum umræðum á breska þinginu, væntanlega gegn helsta keppinauti sínum, Jeremy Corbyn leiðtoga Verkamannaflokksins.
epa

Í dag ganga Bretar til kosninga sem gætu orðið þær mikilvægustu í nútímasögu landsins og er af því tilefni áhugavert að fylgjast með hvaða kjördæmi geta ráðið úrslitum.

Boris Johnson forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins segist þurfa 9 sæti til viðbótar til að koma samningi sínum við Evrópusambandið um hvernig útgöngu Bretlands úr sambandinu skuli háttað í gegn um þingið. Hefur hann lagt áherslu á það í kosningunum, auk loforða um aukinn stuðning við uppbyggingu lestarsamgangna og við lögregluna ásamt ótal öðrum málum.

Jeremy Corbyn leiðtogi Verkamannaflokksins hefur hins vegar neitað að taka afstöðu til þess hvort Bretland eigi að ganga úr sambandinu, og sagt ætla að semja upp á nýtt og láta svo kjósa um samninginn. Hann hefur jafnframt lagt áherslu á að styrkja ríkissjúkrakerfi landsins, NHS, ásamt því að þjóðnýta járnbrautakerfi og aðra samgönguinnviði.

Þannig gætu Frjálslyndir Demókratar og Skoski þjóðarflokkurinn náð að græða á sterkri andstöðu stórs hóps kjósenda við útgöngu Bretlands, öðru nafni nefnt Brexit, meðan einnig gæti stuðningsflokkur Nigel Farage, Brexit flokkurinn haft áhrif á kosningarnar en hann býður sig fram í kjördæmum sem Íhaldsflokkurinn náði ekki í síðustu kosningum.

Bresku kosningarnar eru í raun 650 aðskildar kosningar í einmenningskjördæmum sem sum hver hafa áratugum saman verið örugg vígi sumra flokkana en nú gæti sterk staða til að mynda Verkamannaflokksins í norður hluta Englands verið að rofna vegna stuðnings margra hefðbundinna stuðningsmanna flokksins við útgöngu úr Evrópusambandinu.

320 þingsæti gætu dugað til að mynda meirihluta

Miðað við þennan fjölda þyrfti Íhaldsflokkurinn að ná 326 þingsæti til að hafa hreinan meirihluta, en þá er ekki tekið tillit til þess að bæði þingforsetinn, og þrír aðrir þingmenn sem sjá um stjórn þingsins kjósa ekki.

Þess utan náði Sinn Fein, flokkur lýðveldissinna á Norður Írlandi 9 þingsætum í síðustu kosningum, en þar sem flokkurinn neitar að viðurkenna yfirráð bresku krúnunnar á Írlandi tekur hann ekki sæti á þinginu né sver Drottningunni þann hollustueið sem til þess þarf.

Svo um 320 þingsæti gætu dugað til að hafa meirihluta, en í kosningunum í júní 2017 náði Íhaldsflokkurinn 317 þingsætum, en þurfti að semja við Lýðræðissinnaða sambandssinna á Norður Írlandi um meirihluta.

Sá flokkur er algerlega á móti útgöngusamningi Boris við ESB, þar sem hann gerir ráð fyrir að um tíma verði Norður Írland áfram innan tollakerfis Evrópusambandsins, með uppsetningu tollahliða á milli eyjanna Stóra Bretlands og Írlands.

Í umfjöllun CNN eru tekið saman þau 20 þingsæti sem gætu ráðið úrslitum, til að mynda ríka úthverfið Kensington, sem Verkamannaflokkurinn náði með 20 atkvæðum á móti Íhaldsflokknum í síðustu kosningum, og Dudley North, sem þeir náðu með 22 atkvæðum, en það síðarnefnda studdi útgöngu Bretlands úr ESB og er í sterkustu vígjum Verkamannaflokksins í norður Englandi.

Sigur Íhaldsflokksins í þessum kjördæmum, sem og í Norfolk North, Sedgefield og Walsall South, væri sterk vísbending um að Íhaldsflokkurinn væri að ná markmiði sínu um að byggja upp hreinan meirihluta gegn klofnum andstæðingum útgöngu sem gætu skipt atkvæðum sínum milli fleiri flokka.

Munar oft örfáum atkvæðum

Ef Verkamannaflokkurinn nær kjördæmum eins og Southampton, Itchen, þar sem Íhaldsflokkurinn náði 31 atkvæða meirihluta í síðustu kosningum gæti hins vegar stefnt í að stjórnarandstaðan muni myna nýjan meirihluta eftir kosningarnar. Sama á við um kjördæmið Hastings and Rye, sem Íhaldsmenn náðu með 346 atkvæðum, en þingmaður flokksins sagði sig úr honum eftir átök við Boris.

Önnur kjördæmi sem Verkamannaflokkurinn þyrfti að sigra í væru Chipping Barnett, en meirihlutinn þar studdi áframhaldandi veru í ESB þó Íhaldsmenn sigruðu það með 353 atkvæðum í síðustu kosningum.

Kjördæmið Middelsborough South and East Cleveland er svo eitt þeirra kjördæma sem Verkamannaflokkurinn gat lengi treyst á en töpuðu í síðustu kosningum en íbúar þess kusu í miklum mæli með útgöngu úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Loks ef Verkamannaflokkurinn næði Kingswood sem er rétt utan við Bristol borg sem studdi áframhaldandi veru í ESB með miklum meirihluta gæti stefnt í stórsigur flokksins.

Þingmaður í kjördæmi Margrétar Thatcher hætti í Verkamannaflokknum vegna gyðingaandúðar

Frjálslyndir Demókratar, sem hafa þá stefnu að hreinlega hætta við Brexit, leggja áherslu á að vinna til að mynda auðuga úthverfið Richmond Park, sem þeir héldu með 45 atkvæðum síðast en þar gæti stefna flokksins um útgönguna fallið í frjóan jarðveg. Önnur kjördæmi sem þeir setja stefnuna á eru Chelsey and Fulham og St. Ives í Cornwall.

Loks er kjördæmið Finchley and Golders Green, sem er nokkurn vegin gamla kjördæmi Margaret Thatcher fyrverrandi forsætisráðherra Bretlands, líklegt til að falla þeim í skaut en fyrrum þingmaður Verkamannaflokksins fyrir kjördæmið, Luciana Berger, býður sig nú þar fram fyrir Frjálslynda demókrata.

Gekk hún úr Verkamannaflokknum vegna óánægju með neikvæða orðræðu um gyðinga sem sögð er hafa þrifist þar innanhús, en í þessu kjördæmi er eitt hæsta hlutfall íbúanna gyðingar í Bretlandi.

Lýðveldissinnar fara ekki gegn hvorum öðrum í Norður Írlandi

Kjördæmi sem áhugavert er að fylgjast með í Skotlandi eru til að mynda North East Fife, Renfrewshire East og West Aberdeenshire and Kincardine, en í því síðasta er mjög jafnt milli allra stóru flokkanna þriggja auk Skoska þjóðarflokksins.

Á Norður Írlandi eru svo Belfast North og Belfast South, en í báðum kjördæmum reyna lýðveldissinnar að ná meirihluta með því að Sinn Fein býður sig einn fram í norðrinu en hófsamari flokkurinn SDLP býður sig fram án keppni frá Sinn Fein í suðrinu.

Önnur kjördæmi sem er þess virði að fygljast sérstaklega með þegar niðurstöður eru birtar hver af fætur annarri í nótt eru til að mynda Hartlepool sem stjórnarformaður Brexit flokksins, Richard Tice stefnir á, en UKIP flokkurinn sem hann klauf sig frá náði öðru sæti þar 2015.

Isle of Wight ætti að vera öruggt þingsæti fyrir Íhaldsmenn en Græningjar sem halda nú þingsætinu Brighton Pavilion leggja áherslu á að reyna að bæta eyjunni við sig. Loks er þingsæti Boris Johnson, Uxbridge and South Ruislip, þar sem ungur nemandi fer gegn honum, en það er óþekkt í sögu Bretlands að sitjandi forsætisráðherra tapi þingsæti sínu.