Grunur leikur á að breski bankinn Standard Chartered hafi tekið þátt í milljarða peningaþvætti fyrir stofnanir í Íran. Talið er að bankinn hafi gert írönskum bönkum og fyrirtækjum kleift að fela um 60.000 færslur að andvirði minnst 250 milljarða bandaríkjadala innan bankans. Þetta kemur fram á vef New York Times í dag.

Fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum segir peningaþvættið hafa farið fram í nær áratug. Rannsóknin hefur staðið yfir í níu mánuði og er talið að bankinn hafi hagnast um hundruð milljónir dala fyrir þvættið.

Færslurnar sem um ræðir hafa verið ólöglegar sökum efnahagsþvingana Bandaríkjanna gegn Íran. Nú hefur verið hótað að endurkalla starfsleyfi bankans í Bandaríkjunum.