Diana Wallis, þingmaður breska Frjálslynda flokksins á Evrópuþinginu, hefur gagnrýnt bresku ríkisstjórnina opinberlega fyrir að beita hryðjuverkalögum til þess að frysta eigur íslenskra banka í Bretlandi. Með því hafi stjórnin sett alþjóðleg viðskipti með fisk í hættu.

,,Ég man ekki eftir því að ríkisstjórnir Írlands eða Þýskalands hafi íhugað að beita hryðjuverkalögum gegn Bretlandi þegar ríkisstjórn okkar lét það viðgangast að Equitable Life nánast hrundi með þeim afleiðingum að þúsundir manna misstu ellilífeyri og sparnað án þess að þeim hefði verið það bætt öll þessi ár sem liðin eru síðan,” sagði þingmaðurinn.

Diana Wallis lét þessi orð falla í tengslum við heimsókn sína til Iceland Seafood þar ytra, að því er fram kemur á alþjóðlega sjávarútvegsvefnum IntraFish.