Endurskoðendur í Bretlandi telja líklegt að fjölskyldufyrirtæki muni í auknu magni auka hagnað sinn með því að greiða ekki arð til eigenda sinna.

Með því geta eigendur fyrirtækjanna komist hjá því að greiða 50% hátekjuskatt sem breska ríkisstjórnin hyggst leggja á í apríl á næsta ári.

Í fréttaskýringu breska blaðsins The Daily Telegraph kemur fram að hátekjuskattur hafi áður „komið í bakið á fjármálaráðuneytinu“ eins og það er orðað, þ.e. að bæði fyrirtæki og hátekjueinstaklingar hafi fundið leiðir til að komast hjá því að greiða slíka skatta. Á níunda áratugnum tókst fyrirtækjum að hagræða hagnaði sínum með aðstoð endurskoðenda, þó innan ramma laganna, og komust þannig hjá því að greiða hátekjuskatta.

Eins og áður hefur verið greint frá hefur ríkisstjórn Bretlands, að frumkvæði Alistair Darling fjármálaráðherra, lagt til að lagður verði á sérstakur 50% hátekjuskattur á þá sem þéna yfir 150 þúsund Sterlingspund árlega.

Stephen Herring, skattaráðgjafi hjá BDO Stoy Hayward segir í samtali við Telegraph að skatturinn muni að öllum líkindum leiða til þess að minni fyrirtæki, þá gjarnan fjölskyldufyrirtæki muni skilja árlegan hagnað fyrirtækjanna eftir í fyrirtækjunum og greiða frekar tekjuskatt fyrirtækja, sem er mun lægri en hátekjuskatturinn.

„Við erum ekki að tala um peninga sem menn hefðu annars eytt í snekkjur og annan lúxus, heldur arð sem eigendur lítilla fyrirtækja hefðu greitt sér og lagt inn á sparnað með einhverjum hætti,“ segir Herring í samtali við Telegraph.

„Það er augljóslega hagkvæmara að sleppa því að greiða sér arð, geyma fjármagnið í fyrirtækjunum og greiða tekjuskatt af hagnaði fyrirtækisins.“