Breski verðbréfamiðlarinn Nicholas Levene hefur verið dæmdur til þrettán ára fangelsisvistar fyrir svikamyllu sem hann rak á árunum 2005 til 2009. Á hann að hafa svikið út úr fjárfestum um 32 milljónir punda og þar af mun hann hafa eytt um átján milljónum punda í lúxuslíf fyrir sjálfan sig.

Í raun var miðlarafyrirtæki hans ekki annað en ponzi-svikamylla, en fjárfestar létu hann hafa fé sem hann sagðist fjárfesta í verðbréfum. Þess í stað notaði hann féð til að kaupa dýrar fasteignir, byssur, sportbíla og rándýr ferðalög. Svo falsaði hann bækur fyrirtækisins svo að þær virtust sýna fram á methagnað ár eftir ár. Þessi meinti hagnaður var hins vegar ekki annað en fé nýrra fjárfesta. Alls runnu um 250 milljónir punda inn í fyrirtækið, en gert er ráð fyrir því að ekki fáist upp í allar kröfur fyrrverandi fjárfesta.