Bresk yfirvöld tilkynntu í dag að 5G dreifikerfistækni kínverska tæknirisans Huawei verði bönnuð alfarið í áföngum næstu árin. Ákvörðunin markar stefnubreytingu frá því í janúar, en þá var ákveðið að leyfa tækni fyrirtækisins að takmörkuðu leyti.

Síaukinn þrýstingur bæði innanlands og alþjóðlega, þá helst frá Bandaríkjunum, er sagður helsta ástæðan. Bandarísk stjórnvöld hafa eldað grátt silfur við Kína síðustu misseri, bæði yfirvöld þar í landi og stórfyrirtæki á borð við Huawei, sem Bandaríkin líta á sem handbendi stjórnvalda, þrátt fyrir staðfastar neitanir af hálfu tæknirisans.

Fjarskiptafyrirtækjum verður óheimilt að kaupa nýjan búnað frá Huawei frá og með næsta ári, og þeim svo gefin sjö ár til að skipta út þeim búnaði sem fyrir er.

Málamiðlunin sem sæst var á í janúar eftir nokkur átök fól í sér að búnað Huawei mætti ekki nota í viðkæmasta hluta dreifikerfisins, og að í öðrum hlutum mætti hlutdeild hans ekki fara yfir 35% af heildarkerfinu. Það takmarkaða leyfi hefur nú verið afturkallað.

Í frétt BBC um málið er haft eftir breskum embættismanni að bandarísk yfirvöld hafi beitt „linnulausum þrýstingi“ gegn Huawei, en þau hafa sagt búnaðinn opna á „njósnir, þjófnað og árásir“ kínverskra yfirvalda gegn Bretlandi.

Fjölmiðla-, menningar- og tæknimálaráðherra Bretlands sagði ákvörðunina óhjákvæmilega tefja uppsetningu 5G-dreifikerfis landsins, og ráðlagði gagnaveitufyrirtækjum að forðast kaup á búnaði frá tæknirisanum kínverska.