Neðri deild breska þingsins samþykkti í gær að banna reykingar á veitingahúsum og krám á næsta ári.

Bannið fylgir í kjölfar svipaðra reykingarbanna á Írlandi, Ítalíu og í Noregi. Reykingar eru einnig víða bannaðar á veitingahúsum og börum í Bandaríkjunum.

Margir veitingahúsa- og kráareigendur telja að bannið muni skaða reksturinn, á meðan aðrir halda því fram að nýir kúnnar muni í auknum mæli sækja pöbba og bari þar sem reykingar eru ekki leyfðar.

Ef bannið er ekki virt geta viðskiptavinir kráa og veitingastaða verið sektaðir um 50 pund og veitingahúsaeigendur verða sektaðir um 200 pund ef merkingar um reykbannið eru ekki sýnilegar.