*

sunnudagur, 29. mars 2020
Erlent 1. nóvember 2017 14:52

Bretar búast við vaxtahækkun

Væntingar eru um að Englandsbanki hækki vexti í fyrsta skipti í meira en áratug á morgun.

Ritstjórn

Búist er við því að Englandsbanki, breski seðlabankinn, muni hækka vexti á morgun fimmtudag í fyrsta skipti í meira en áratug. Vextir víðs vegar á Vesturlöndum hafa verið í sögulegu lágmarki en greinendur reikna með að að stýrivextir breska seðlabankans hækki úr 0,25% í 0,5% að því er kemur fram í á vef The Wall Street Journal. Vextir bankans hafa staðið í 0,25% frá því fyrir ári en þá lækkaði bankinn vexti í kjölfar Brexit atkvæðagreiðslunnar en þetta eru lægstu vextir sem hafa verið í Bretlandi í þrjár aldir.

Breski seðlabankinn hefur þó áður gefið til kynna að hann hyggist hækka vexti en hætt við vegna óvæntra efnahagserfiðleika. Peningastefnunefnd bankans sagði í september að hún hygðist hækka vexti ef hagkerfið stæði undir væntingum á næstu mánuðum. Síðan þá hafa gögn gefið til kynna að hagvöxtur sé stöðugur í 1,6% og verðbólga farið fram úr 2% verðbólgumarkmiði bankans en að sama skapi hefur atvinnuleysi dregist saman. 

Ekki eru þó allir á eitt sáttir um að nú sé rétti tíminn til vaxtahækkana í Bretlandi en talsverð óvissa ríkir um niðurstöðu Brexit samningaviðræðna. Í skoðanakönnun fjárfestingabankans Nomura töldu tæpur helmingur viðskiptavina bankans það mistök hækki seðlabankinn vexti og hætta væri á að atvinnuleysi aukist árið 2018 í kjölfarið af vaxtahækkun.

Fari það svo að bankinn hækki vexti búast hagfræðingar ekki við áframhaldandi vaxtahækkunum í kjölfarið heldur að Englandsbanki fari sömu leið og Seðlabanki Bandaríkjanna sem hækkaði vexti í desember 2015 en beið svo í tólf mánuði áður næsta vaxtahækkun átti sér stað.