Bretar verða fjölmennasta ríki Evrópusambandsins (ESB) eftir nokkra áratugi, samkvæmt nýrri spá evrópsku hagstofunnar, Eurostat.

Sérfræðingar stofnunarinnar spá því að breska þjóðin muni vaxa um fjórðung á næstu 52 árum og fari úr því að vera 61 milljón í dag í það að vera 77 milljónir árið 2060.

Eurostat spáir því að Frakkar verði orðnir 72 milljónir árið 2060 og að Þjóðverjar verði 71 milljón.

Eurostat spáir enn fremur að íbúar ESB verði orðnir 506 milljónir árið 2060. Íbúar sambandsins eru 495 milljónir í dag. Gert er ráð fyrir að fólksfjöldinn nái hámarki árið 2035 og telji þá 521 milljón en eftir það muni fólki fækka.

Gert er ráð fyrir að meðalaldur íbúa muni hækka á þessu tímabili vegna lágrar fæðingartíðni og vaxandi fjölda þeirra sem ná háum aldri.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins að ef spá Eurostat rætist muni hlutfall ellilífeyrisþega fara upp í 42,1% af heildaríbúafjölda Bretlands. Hlutfallið er 24,3% í dag.

Ljóst er að slík þróun – í Bretlandi sem og annars staðar – mun hafa meiriháttar áhrif á ýmsa innviði samfélagsins, svo sem lífeyrissjóðakerfi og velferðarmál, auk þess sem hún kemur til með að hafa áhrif á viðkvæma málaflokka á borð við innflytjendamál.

Reyndar er það svo að slíkar spár geta í sumum tilfellum einar og sér haft áhrif á stefnumótun í viðkomandi málaflokkum.