Sendinefnd breska fjármálaráðuneytisins og Englandsbanka fundar í dag með íslenskum embættis- og bankamönnum í Reykjavík. Tilgangurinn er að vernda breska innistæðueigendur frá því að tapa sparnaði sínum.

Í umfjöllun Times segir að góðargerðarstofnanir hafi átt meira en 125 milljónir punda í Kaupþingi og Landsbankanum. Um er að ræða a.m.k. tíu háskóla, auk þess sem Times tekur dæmi af því í umfjöllun sinni að Christie spítalinn, sem sérhæfir sig í krabbameinslækningum, átti 2 milljónir punda í íslenskum banka. Kattavinafélagið (Cats Protection) geymdi framlög upp á 11,2 milljónir punda inni í íslenskum banka og óvíst er hvort þeir fjármunir fást til baka, skv. umfjöllun Times.

Breska ríkisstjórnin hefur ekki fallist á að tryggja innistæður samtaka og háskóla né heita fjárhagslegum stuðningi þeim til handa.

Samkvæmt frétt Guardian gæti tap ýmissa félagasamtaka og sveitarfélaga á Bretlandi vegna íslenska bankahrunsins numið 1 milljarði punda.