Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í viðtali við breska dagblaðið The Telegraph á dögunum að það myndi liðka fyrir ferlinu við lagningu raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands ef bresk stjórnvöld myndu veita skýr svör um fast raforkuverð sem Íslendingum yrði tryggt á líftíma strengsins. „Bresk stjórnvöld hafa viljað halda lifandi einhvers konar samtali við íslensk stjórnvöld um að meta kosti og galla þess að fara út í þetta verkefni,“ sagði Bjarni í samtali við Viðskiptablaðið. „Þetta er enn dálítið fjarlæg hugmynd finnst mér. Við skipuðum starfshóp sem skilaði stöðuskýrslu af sér á síðasta ári. Það er ljóst af niðurstöðu starfshópsins að það er fjölmörgum spurningum ósvarað bæði innanlands og utan,“ segir Bjarni.

„Með þeim spurningum sem þarf að svara hér innanlands er ég að vísa í hvers konar stórvirki þyrfti að ráðast í hér heima til að útvega orku í slíkan streng. Við eigum algerlega eftir að taka þá umræðu hér heima fyrir. Sú umræða verður hins vegar ójarðbundin ef forsendur liggja ekki fyrir. Þess vegna sagði ég í þessu viðtali að það myndi hjálpa töluvert ef við vissum nákvæmlega hvaða verð væri verið að tala um, sem ætti að tryggja Íslendingum yfir líftíma strengsins. Þessari spurningu hefur aldrei verið svarað og þess vegna er umræðan um þetta mál allt saman enn á floti. Það er í raun og veru mjög erfitt að fara út í útreikninga á hagkvæmni slíkrar framkvæmdar.“

Margir þættir sem þarf að skoða

Bjarni segir að það séu bæði efnahagslegir og samfélagslegir þættir sem verði að skoða til að leggja mat á hvort lagning raforkusæstrengs sé fýsileg fyrir Ísland. „Ég hef alltaf sagt að efnahagsleg hagkvæmni málsins er eitt og það er alveg ljóst að við höfum ekki áhuga á málinu ef það er ekki efnahagslega ábatasamt fyrir Ísland. Síðan er hin hlið málsins sem eru hinir ýmsu samfélagslegir þættir sem þarf líka að taka með í umræðuna og varða hliðaráhrif af því að leggja streng. Þau geta varðað glötuð atvinnutækifæri hér heima fyrir, umhverfislegir og skipulagslegir þættir og línulagnir til að fæða strenginn. Mér finnst nokkuð ljóst að við séum tiltölulega skammt á veg komin með orkukosti eins og vindmyllur og vindmyllugarða sem væri mögulega hluti af orkuöflun fyrir strenginn. Ég tala nú ekki um hvaða vatnsaflseða aðrar virkjanir eins og jarðvarmavirkjanir ættu að vera inni í myndinni líka.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .