Breska fjármálaráðuneytið hefur greint frá því að ráðuneytið hefur greitt út 7,4 milljarða Sterlingspunda (rúmir 1.400 milljarðar ísl.kr. á núverandi gengi) til sparifjáreigenda sem tapað höfðu fé sínu vegna falls íslensku bankanna.

Frá þessu er greint á vef Telegraph en þar kemur fram að breska ríkisstjórnin hafi endurgreitt um 300 þúsund sparifjáreigendum sem voru viðskiptavinir íslensku bankanna þriggja, Kaupþings, Landsbankans og Glitnis.

Þá fer hluti af upphæðinni, eða 2,3 milljarðar punda, í lán til íslenskra stjórnvalda til að endurgreiða innistæðueigendum að hámarki 20.887 evrur vegna Icesave reikninganna. Þá kemur fram á vef Telegraph að ekki hafi verið gengið frá lánakjörum milli ríkjanna, þ.e. vöxtum og endurgreiðslum.

Samkvæmt upplýsingum frá breska fjármálaráðuneytinu greiddi ráðuneytið um 3,3 milljarða punda til viðskiptavina Kaupthing Singer & Friedlander og Heritable Bank (sem var í eigu Landsbankans) auk þess sem talið er að ráðuneytið þurfi að greiða allt að 4,5 milljarða punda vegna Icesave reikninganna en sú tala liggur ekki ljós fyrir.

Stærsti hluti útgjalda ráðuneytisins var lán til breska tryggingasjóðs innistæðueigenda (Financial Services Compensation Scheme) en sá sjóður greiðir fyrstu 50 þúsund pundin sem innistæðu eigendur áttu inni.