Hagvöxtur í Bretlandi verður meiri á þessu ári en áður var gert ráð fyrir, að sögn fjármálaráðherra Breta, Philip Hammond. Um þetta er fjallað í grein AFP-fréttaveitunnar .

Á fundi sem varðaði nýframlögð fjárlög í Bretlandi sagði fjármálaráðherrann að gert væri ráð fyrir 2% hagvexti á þessu ári, en áður var búist við að hann væri einungis 1,4%.

Hammond sagði meðal annars á blaðamannafundi að: „Nú, þegar við búum okkur undir framtíð utan Evrópusambandsins, getum við ekki falið okkur á bak við fyrri afrek.“ Fjármálaráðherrann bætti við að Bretar þurfa að gera það að forgangsatriði að verða leiðandi í alþjóðahagkerfinu. „Þó að viðskiptahallinn sé lægri, þá eru skuldir of háar. Atvinnuleysi er á niðurleið, en framleiðni er enn of lítil,“ sagði Hammond einnig.