Bresk stjórnvöld ætla að horfa til Persaflóa auk Kína og Indlands þegar kemur að því að forgangsraða áherslum í þróun viðskiptatengsla landsins. Gordon Brown, fjármálaráðherra, hefur beðið Viðskiptaráð Bretlands (e. U.K Trade & Investmen) að leggja sérstaka áherslu á að þróa og byggja upp viðskiptatengsl á landsvæðunum frá Marokkó til Írans.

Þrátt fyrir að um sé að ræða mun minna markaðssvæði en hjá risunum í austri: Kína og Indlandi, er hagvöxtur sumstaðar mikill í Miðausturlöndum. Sérstaklega í furstadæmunum við Persaflóa en hagvöxtur í Dubai var til að mynda fimmtán prósent í fyrra. Viðskiptaráðið hyggst gera miðstöð viðskiptaþróunar á svæðinu enda búa þar um 100 þúsund breskir þegnar.

Bresk stjórnvöld horfa sérstaklega til möguleika á sviði mennta- og heilbrigðismála. Eftir miklu þykir að slægja þegar kemur að tækifærum í heilbrigðisferðamennsku og auk þess hefur fjöldi háskóla á Vesturlöndum opnað útibú í furstadæmunum.